Nú er hænsnabónda kafla í byggð í lífi mínum lokið sem hófst fyrir 8 árum 2014

Skúrinn stendur kaldur, skítugur, myrkur og hænsnatómur aftast í myrkum garðinum, gerðið laskað og yfirvaxið villigróðri.

Þó eru þær síðustu þrjár upp í Mosfellsdal og má ég ekki til þeirra hugsa án saknaðar en þær munu aldrei koma til baka. Þetta er búið, lokið, end, fin.

Það er með þetta eins og svo margt annað í lífinu, mig hafði lengi dreymt um að vera með hænur í byggð. Ekki vantaði plássið eftir að flutt var í Fossvoginn, nærri 1000 m2 garður og svo gerðist það að fjölskyldan gaf mér hænsnaskúr, algera völundar og hugvitssmíði úr gömlum sjónvarpsskáp og þrjár þriggja mánaða gamlar hænur.

Ein reyndist þó vera hani þegar á reyndi svo það þurfti að skila honum og fá nýja og þessar þrjár hélt ég í nokkur ár en hænur verða sjaldnast mjög gamlar og svo kom að þreyttar lífdaga féllu þær ornar gamlar og lúnar lífsdaga.

Svo var frúnni gefin alhvít hæna í afmælisgjöf en alhvítar landnámshænur eru með þeim sjaldgæfari eins kostulegt og það hljómar svo farið var úr á örkina og fengnar tvær til viðbótar því hænur eru hópdýr svo maður verður að lágmarki að vera með þrjár. Þessar þrjár voru yndið eitt og já eru það svo sem ennþá þótt þær séu ekki lengur hér aftur í garði í skúrnum sínum, en þurftu að fara í „pössun“ þegar ég fékk æxli í lunga snemma sumars 2022 og varð of veikur til þess að geta hugsað um þær lengur.

En þótt ég hafi smátt og smátt verið að braggast eru það aðrir hlutir, aðrar breytingar, sem gera það að verkum að þótt ég yrði nógu heilsuhraustur til þess að geta sinnt þeim með sómasamlegum hætti, þá eru skilyrði þess að vera með hænur lengur brostnar og ég tel óvíst að þau skilyrði muni skapast aftur svo þessum kafla í lífi mínu er því lokið.

En hænunum tókst þó að komast á forsíðu Bændablaðsins, geri aðrar hænur betur og voru öllum í hverfinu sem gengu reglulega stíginn með fram garðinum eilíf ánægja, að vísu sem og önnur dýr heimilisins sem máttu þó hafa sig öll við að keppa við vinsældir hænanna enda fólk almennt ekki vant því að sjá hænur á vappi í görðum í byggð svo hundar og kettir fengu litla athygli samanborið við hænurnar hvað svo sem reynt var að gelta og mjálma.

En allt tekur á endanum enda eða flest allt að minnstakosti og nú er þessum kafla lokið og hvaða vitleysa í þessari deildinni mér muni detta í hug næst veit ég ekki eða hvort ég láti dýrastússi lokið en ég hef búið með dýrum allt mitt líf með einum eða öðrum hætti svo það verða mikil viðbrigði að vita að fljótlega sé ég að fara að búa með ekki einu einasta dýri, eða svo lítur út fyrir núna hvað svo sem verður.

Skildu eftir skilaboð / Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.