Í tilefni nýyrðisins skólasniðganga sem ég byrjaði að stunda upp úr 12 ára aldri

Í tilefni nýyrðisins skólasniðganga, sem ég byrjaði að stunda upp úr 12 ára aldri en þó bara í völdum fögum og hjá völdum kennurum.

Það er margt leiðinlegt sem ég hef gert um ævina, en það alleiðinlegasta var að vera í grunnskóla. Þar fóru 7 ár í að gera nær eingöngu leiðinlega hluti heilu og hálfu daganna og gerði mig frábitinn meiri skólagöngu og endaði minn skólaferil eftir skyldunám með próf í Gagnfræði (lesist, próf upp á að geta gert eitthvað gagn 😉 )

Enda passaði ég og passa ekki enn inn í þann ramma sem skóli er, hvorki þá né í dag og er að grunni til búin að vera síðastliðinn 150 ár.

En svo fór ómenntaður ég sjálfur að kenna

Til fróðleiks en þó aðallega skemmtunar frá að segja, hef ég gert töluvert af því að kenna ómenntaður fallistinn úr grunnskóla og ómenntaður í kennslufræði.

Og það sem meira er, nær eingöngu á háskólastigi. Eins og sem dæmi Listaháskólann, Háskóla Íslands, eins sérskóla eins og Margmiðlunarskólann og fyndið nokk, framhaldsbraut Kennaraháskólans 😉

Aftur á móti þá var ég beðinn um að kenna á framhaldsskólastigi og kom strax í ljós að til þess var ég óhæfur. Ég get bara kennt fólki sem hefur áhuga á því sem ég er að kenna en höndla enganveginn og kann ekki að kenna krökkum sem leiðist eða vilja ekki læra og eru bara með tómt vesen og leiðindi. Semsagt, ég hefði ekki getað kennt sjálfum mér.

Ekki kennurunum að kenna

En ég hafði á þessum mjög svo leiðinlegu árum nokkra kennara sem vissu og kunnu alveg að díla við svona gúbba eins og mig og eru þeir mér mjög eftirminnilegir og lærði mikið af þeim. Ekki endilega pensúmið sem ég átti að vera að læra heldur um mannleg samskipti og ekki síst um sjálfan mig og hví mér fannst skóli vera svoddan leiðindi og kvalræði.

Ekki veit ég hversu margir svona kennarar eru að kenna í dag en grunar að þeir séu mikið mun fleiri en tölur um brottfall nemenda og skólaleiða segja til um, því nemandi sem vill ekki fara í skólann gæti og mjög sennilega myndi vilja fara í kannski eitt eða tvö fög vegna þess að viðkomandi kennarar kunna að díla við þá fjölbreyttu flóru sem mannlífið er og hafa hæfileikann sem til þarf til þess að lesa einstaklinga og kenna þeim samkvæmt því.

En kennurum er ekki gert hægt um vik. Lög um einstaklingsmiðaða kennslu er óframkvæmanleg með of stóra bekki alveg sama hversu færir kennararnir eru, alltaf verða einhverjir sem falla milli skips og bryggju einfaldlega vegna þess að þrátt fyrir bæði hæfileikann og viljann þá kemst kennarinn ekki yfir að veita hverjum og einum þá mismunandi athygli og kennslu sem þarf ef bekkirnir eru of stórir.

Ég vil meina að í mestalagi helmingi tilfella, jafnvel ekki svo mikið, hafi skólaleiði nokkuð með kennarana sem einstaklinga eða hæfileika að gera, heldur uppbyggingu skólakerfisins sem er ekki í verkahring kennara og oft þannig uppbyggt að þeir eru mjög ósáttir að vera skikkaðir til þess að kenna svona og svona alveg eins og mörgum nemendum finns þeir vera.

Vildi bara koma þessu að því mér finnst mikilvægt að gera skíran greinarmun á kennurum og skólakerfinu sem þeim er uppálagt að starfa innan og þeim reglum sem þeim er ætlað að fylgja.

Ómanneskjulegt kerfi

Í mínu tilfelli voru það sjaldnast kennararnir, ja, jú, ég var í skóla á þeim árum sem núverandi skólakerfi þótti normið en er öngvegin passandi í dag. Þeir kennarar sem kunnu vel sitt fag voru því frávikin, þeir voru einfaldlega þannig einstaklingar en ekki þannig lærðir.

Í dag er staðan allt önnur. Kennarar í dag og þá að virðist sérstaklega oft með hæfustu kennurunum, eru að gefast upp umvörpum, þeir geta ekki meira og hverfa til annara starfa.

Það segir sjálfsagt mest um hvar vandinn liggur. Hann er kerfislægur, hann liggur í kerfissaminni aðalnámskrá og álíka hlutum en ekki hjá einstaklingunum sem fást við kennslu.

Skildu eftir skilaboð / Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.