Í dag hefst Ýlir annar mánuður vetrarmisseris

Í dag, 21. nóvember 2022, hefst Ýlir sem er annar mánuður vetrarmisseris Misseristalsins. Hann hefst ætíð á mánudegi í fimmtu viku vetrar á tímabilinu 20. til 27. nóvember og fellur þetta árið 2022 á mánudaginn í dag.

Um nafn mánaðarins er ekkert vitað og er hann einn mesti huldumánuður Íslenska misseristalsins og verið uppspretta kenninga sem flestar eru þess efnis að nafn hans vísi til orðsins Jól og hann hafi verið hin heiðni Jólamánuður.

Margt getur verið til í því og hef ég bætt við þessa grein nokkrum þeim kenningum og fornum heimildum sem gætu bent til þess að svo hafi verið og þá líklega um eða nærri honum miðjum en mín persónulega kenning er sú að hin heiðnu Jól hafi verið haldin á eða nærri 12. eða 13. desember þegar fyrsti Jólasveininn samkvæmt Íslenskri þjóðtrú kemur til byggða.

Ég fer þó ekkert nánar út í það í þessari grein enda á ég eftir að fara betur yfir þær heimildir sem ég nota til þess að reyna að bakka þá kenningu mína upp en tíunda aftur á móti ýmis atriði sem ekki hefur verið ritað um sem gætu bent til þess að hin heiðnu Jól hafi verið haldin í Ýli.

En ekkert er vitað og ekki ein einasta heimild til um hvenær hin heiðnu Jól voru haldin og fáar heimildir til um hvernig þau voru haldin annað en að vera ein allsherjar matar og fyllirísveisla með engan trúarlega tilgang og eingöngu til þess að skemmta sér, að tilgáta hvers og eins er alveg jafn góð og hvaða fræðifólks sem er.

Því tíni ég til nokkur atriði sem gætu hafa verið ástæður þess að halda Jól einmitt um miðjan Ýli en læt fólki það alfarið eftir að mynda sér skoðun á því sjálft hvort þeim finnist eitthvað af þeim atriðum geta bent til þess.

Það er stutt í Aðventuna og öll fer hún frá í Ýli, svo við getum alveg kallað hann Jólamánuð þótt svo skringilega vilji til að hann hefur aldrei verið kallaður það en næsti mánuður á eftir honum, Mörsugur, sem ætíð hefst um Vetrarsólstöður og inniheldur Krist messu, hin Kristnu Jól, hefur verið kallaður Jólamánuður í fáum heimildum. En aldrei hafur hinn dulúðlegi Ýlir verið kallaður Jólamánuður.

Svo Gleðileg heiðin Jól, eða ekki, hver veit 😉

Skildu eftir skilaboð / Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.