Einelti er upp á líf og dauða

Upphaflega skrifað á FB 1. nóvember 2022

Lítil saga fengin að láni á FB, aðferðinni er öllum frjálst að nota

—-

„Kennari í New York var að kenna bekknum um einelti og lét þau framkvæma smá æfingu. Hún fékk börnunum pappírsbút og sagði þeim að hnoða og kuðla og trampa svo á kuðlinu… og skemma eins og þau gætu, bara ekki að rífa niður. Svo lét hún börnin breiða úr pappírnum og prófa að slétta krumpurnar, en ekki síst, virða fyrir sér hvernig þau hefðu skemmt pappírinn og gera sér grein fyrir hvað hann var orðinn óhreinn.

Síðan sagði kennarinn börnunum að biðja pappírinn afsökunar. Hversu mikið sem börnin báðu pappírinn afsökunar og reyndu að laga það sem þau hefðu krumpað og óhreinkað, þá hurfu skemmdirnar ekki. Kennarinn fékk börnin til að ræða og skilja að hvað sem þau reyndu eða vildu slétta og laga það sem þau hefðu gert við pappírinn, myndi aldrei lagast og búið væri að skemma pappírinn varanlega.

Þetta væri einmitt það sem gerðist þegar einelti væri beitt gegn öðrum. Hversu oft sem gerandinn bæði fórnarlambið afsökunar, þá væru örin komin til að vera og fylgja fórnarlömbunum allt þeirra líf. Upplitið á börnunum í bekknum sagði kennurunum að hún hafði hitt í mark.“

—-

Hugleiðing frá mér út frá þessari sögu

Munum, einelti er ekki grín, það getur verið upp á líf og dauða og er það æði oft og heldur ekki gleyma því að það getur verið gerendum einnig banvænt ekki bara þolendum því oftlega þó allsekki alltaf eru þau sem leggja aðra í einelti í kvöl sjálf og stundum er þetta hróp á hjálp.

Á sama tíma og það þarf að vera skýr stefna að einelti lýðist aldrei undir nokkrum kringumstæðum og hart eigi að taka á því og gerendur í mjög mörgum ef allflestum tilfellum fjarlægðir af vettvangi en ekki þolendur eins og virðist lenska.

En þá þarf líka á sama tíma að vera til jafn vel skipulagt teymi fólks með næga reynslu sem grípur samstundis inn í og grípur þolendur en ekki má gleyma, líka grípa gerendur, því ef ekki tekst að finna rót vandans sem ævinlega er hjá gerendum, ég ítreka, þolendur eiga ALDREI sök á einelti, bara gerendur, þá er mjög líklegt að illa fari fyrir viðkomandi einstaklingi og viðkomandi muni bera sár alla ævi rétt eins og þolandinn.

Því sár þolenda gróa aldrei eins og fram kemur í litlu sögunni hér að ofan og tala ég þar af reynslu hafandi verið lagður í einelti alla mína grunskólagöngu eða frá 1 til 8 bekkjar eins og það hét þá en tók loka árið í öðrum skóla og þar var ekkert einelti enda eineltið alfarið bundið við ákveðna einstaklinga sem voru gerendurnir en þótt þeir voru í nýja skólanum og meira að segja í bekk með mér og ætluðu að halda áfram sama hætti, þá risu krakkarnir upp sem komu úr öðrum skólum og stoppuðu það af, „hvað er eiginlega að ykkur, eru þið eitthvað verri, hvað hefur hann gert?“ Þó var þeim alveg ljóst hvaða skrítna skrúfa ég var sem var réttlætingin sem notuð var fyrir þessu einelti í gegnum allan grunnskóla án þess að nokkur lyfti litla fingri, en þessum nýju krökkum fannst það ekki réttlæta að ég væri píndur enda hví má ekki hver vera eins og viðkomandi er án þess að eiga á hættu að vera laminn eða píndur meða einum eða öðrum hætti?

Samt tala ég fyrir því að það er jafn mikilvægt að grípa gerendurna líka, rétt eins og þolendurna, því ef ekki, getum við verið af framleiða gesti Litla Hrauns framtíðarinnar eða andvana líkhúsgesti.

Munum, einelti er upp á líf og dauða, því er algerlega óforsvaranlegt að svo létt og kæruleysislega sé tekið á því.

Látum engan drepast algerlega að óþörfu eða brotna og særða á sál og líkama skreiðast í gegnum lífið vegna þess að skóla yfirvöld …. hvað? Hví gerði engin neitt, hví gerir engin neitt, hversu margir krakkar og fullorðnir seinna þurfa að deyja til þess að skólayfirvöld, og já, allt kerfið, foreldrafélög, barnaverndunarnefndir, geðheilsu og sálfræðiteymi heilsugæslunnar, lögreglu þegar það á við, forvarnarfulltrúar, jafnvel fíkniefnaráðgjafar þegar svo á við, taki höndum saman og einfaldlega STOPPI! einelti.

Enn og aftur, hversu margir þurfa að deyja? Ha? Er Barnamálaráðherra búinn að ákveða einhverja tölu þeirra sem þurfa að falla fyrir eigin hendi eða annara uns eitthvað er gert? Ég ætlaði að stúta mér, en ég gerði það ekki, guð sé lof fyrir það og fyrir utan öll sem falla að baki þeim eru öll þau sem hugleiða það, ætla, reyna en guggna eða geta það ekki einhverra hluta vegna. Ég man eftir einstaklingi sem varð fyrir hrottalegu einelti og það eina sem hélt lífinu í viðkomandi var að verja yngra systkini sem var í sama skóla. En það fór ekki vel fyrir þessum einstaklingi, lífshlaup viðkomandi var ekkert líf, því hafði verið rústað fyrir lífstíð sárum sem aldrei gróa en yngra systkinið slapp, varið af sundur börnum ofan í klósett dífum eldra systkinis.

Einelti er upp á líf of dauða, hvenær ætlar fólk virkilega að fara að skilja það, þarf að raða líkum krakkana í röð niður á Lækjartorgi svo þau blasi við Stjórnarráðinu áður en eitthvað gerist?

Krumpað blað er aldrei hægt að slétta, hversu mikið sem þú reynir. Ennþá ber ég ólæknandi sár sem aldrei munu gróa, ævi mín hefði orðið allt önnur. En ég lifði það af þótt tæpt hafi staðið eina stundina en svo vel hefur ekki farið fyrir of mörgum öðrum.

Skildu eftir skilaboð / Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.