Stéttarvitund og fátækt á Íslandi

Það er dálítið skrýtið með hugmyndir um hvaða stétt fólk á Íslandi finnst það tilheyra, sem og tölur um hve margir eru skilgreindir fátækir hérlendis.

Íslendingar virðast ekki hafa sömu stéttarvitund og víðast hvar í öðrum löndum. Hér er hvar fólk setur sig í stétt eiginlega alveg bundið við það sem það vinnur við eða hefur lært, en ekki fjárhag eða félagslega stöðu. Að vera iðnaðar- eða kaupmaður sem dæmi. Þótt viðkomandi geti annaðhvort verið gjaldþrota á götunni, lifa í vellystingum eða öryrki eftir vinnuslys, þá virðist það engu breyta um það að viðkomandi mjög líklega skilgreinir sig út frá menntun eða starfi sem millistétt að virðist. Svo kannski er það ekkert skrítið að fólk nefni ekki lágstétt eða hástétt þegar það er spurt um hvaða stétt því finnst það tilheyra.

Svo er það þetta með fátæktina. Margt fólk segir oft eitthvað á þessa leið; „Maður er alltaf í þessu sama bölvaða basli,“ eða „maður á náttúrulega aldrei krónu,“ eða „maður er alltaf skítblankur,“ og mikið fleiri setningar í sama dúr eru til og veigrar fólk sér sjaldnast, kannski aldrei, við að segja þetta við hvern sem er. En að viðkomandi sé fátækur? Nei. En er það að „vera alltaf í bölvuðu basli,“ ekki fátækt? Eða ef maður fer aftur í stéttirnar, er það að tilheyra millistétt að „vera alltaf skítblankur?“ Er það ekki að tilheyra lágstétt? En það er eins og fólk viti ekki hvað lágstétt sé. Það hafi ekki verið í hana sett nein ákveðin starfsheiti, svo þar með er hún tóm. Jafnvel að vinna við ræstingar er ekki sett þar.

Þessu er oft, kannski alltaf, tekið sem einhverskonar væl eða sjálfsvorkunn. Enda hefur maður eftir að einhver hefur komið með svona yfirlýsingar um bölvaða baslið og það kannski hátt og snjallt, heyrt fólk stinga saman nefjum og í lágværum hneykslunartón sagt eitthvað eins og „þau eru nú ekki blankari en svo að síðasta sumar fóru þau til Tene.“ En hvernig það var fjármagnað, hvort það setti fjölskylduna algerlega á hausinn, eða búið var að skrapa saman fyrir þessari ferð í mörg ár, eða hvort ekki var efni á því að taka börnin með líka, eða fresta tveggja mánaðar afborgunum af Íbúðalánasjóðs reikningunum, vita sjaldnast, kannski aldrei, þau sem hneykslast mest. Enda virðist það vera „bannað“ að svo mikið sem kaupa sér læri í sunnudagsmatinn, ef viðkomandi hefur sagst alltaf vera í bölvuðu basli og skítblankur. Það er kannski bara innan nánustu fjölskyldu og meðal nánustu vina sem raunveruleg staða viðkomandi er þekkt og yfirleitt haldið ítarlega leyndri. Eins og um mannsmorð væri að ræða. Beinagrind í skápnum.

Það er ekki einu sinni þegar fólk er flutt inn í tjald eða húsbíl í Laugardalnum sem þessum nagandi tönnum virðist linna. Ég er búin að heyra fleiri en einn og fleiri en tvo segja að „þetta fólk,“ sé bara að „auglýsa sig,“ „óska eftir vorkunn,“ eða að „þvinga peninga/húsnæði út úr kerfinu,“ og annað álíka. Enda hver er á götunni ef hann hefur efni á því að eiga húsbíl? Bara svo ég nefni eitt dæmi um „rök“ sumra, fyrir því að „þetta fólk“ sé ekkert fátækt. Enda samkvæmt þessari brengluðu stéttarmynd (mín skoðun, aðrir mega hafa allar aðrar skoðanir á því hvort þetta er brenglað eða ekki og virði ég það fullkomlega), ef kalla mætti það því nafni, þá er ekki að virðist til lágstétt á Íslandi.

Það virðist helst vera að aðfluttar konur frá Asíu, en samt einhverra hluta vegna ekki fólk annars staðar frá, sem vinna í þvottahúsi spítalana eða við þrif hjá Securitas séu settar í kassann lágstétt, en engin barnfæddur á Íslandi, engin. Hvernig sem á því stendur þá hallast ég persónulega að því að þetta séu fordómar.

Kassinn millistétt er troðin, en kassinn lágstétt er tómur sem og yfirstétt, ef fólk er spurt hvaða stétt því finnist það tilheyra. Þessi sjálfsmynd fólks á Íslandi er iðurlega notuð sem dæmi um að hvergi ríki jafn mikill jöfnuður á nokkru byggð bóli eins og hérlendis.

Það virðist ekki bara vera fátæku fólki erfitt að viðurkenna, hvorki fyrir sjálfum sér né öðrum, að það sé fátækt og tilheyri því lágstétt. Heldur virðist þjóðfélagið líka neita að samþykkja það. „Þú ert nú ekki svo fátæk, þú átt nú…………, það er nú ekki svo lítið, ha?“ og annað í þeim dúr. Það er „bannað“ að vera fátækur eða í lágstétt, það er bannað að „lepja dauðan úr skel.“ Sjálfsagt er það ein, ef ekki eina ástæða þess að örorku- og ellilífeyrisþegum er „gert“ að skrimta af þeim fáu krónum sem þeim er „úthlutað,“ svona eins og fólki finnist það annaðhvort vera að gefa betlara eða að lífeyrisþegar séu upp til hópa vanþakklátt fólk sem „lifi á kerfinu,“ og að hækka „bæturnar“ (takið eftir orðfærinu, ekki lífeyrir, heldur bætur, eins og ölmusa) myndi algerlega setja ríkissjóð á hliðina. Kosta „mörg hundruð milljarða,“ að sagt er. Þótt fólk viti hvorki hvað mörg hundruð milljarðar eru raunverulega í peningum, hafandi sjaldnast anað en launin sín sem viðmið, né hve stór hluti það er af útgjöldum ríkissjóðs. Það eigi bara að harka af sér og fá sé almennilega vinnu og hætta þessum aumingjaskap, er síðan eitt viðhorfið. Eina sem maður heyrir á aðra lund er; „Ekki gæti ég lifað af 230 þúsund á mánuði eða minna.“ En þau hin sömu og það segja, eru þá oftlega að hugsa um sjálfa sig, þeim hryllir við því ef „það“ þyrfti að lifa á slíkri hungurlús, þegar húsaleiga á Íslandi er oft jafnhá upphæð. Samt er hugsunin um að „fara á örorku,“ samgróin hugsuninni um að „leggjast upp á ríkið,“ þótt allir viti, en viðurkenni ekki, að þar með er viðkomandi að selja sig undir líklega ævarandi fátækt, sem samt má ekki heita fátækt.

En núna er eins og einn og einn sé að vakna upp við vondan draum, hvar sem viðkomandi í (raunverulegri) stétt stendur og sjá þessa mynd eins og hún virðist vera, samt óljóst, eins og gegnum brotið gler. Því orðræðan og hugsunin í dag inniheldur hvorki hugtökin, tilfinninguna, né sýnina á þjóðfélagið sem slíka. Fólk er farið að titla sig sem sósíalista, félagshyggja sem á sér tveggja alda hugmyndasögu og er þá nema von að fólk spyrji, „en hvernig passar það inn í 21. öldina eða iPhone?“ Sumir í forustu verkalýðsfélaga eru líka farnir að tala með öðrum hætti. Þeir tala um stéttabaráttu sem dæmi, jafnvel heyrast orð eins og öreigar eða arðræningjar. Á meðan Íslenskan hefur hverfst um hugtök eins og fjármagnseigendur, fjárfestar, hlutabréf og núna síðast, nauðsyn þess að styrkja innviðina, sem ég held, án þess að vita það með vissu, að fæstir viti nokkuð hvað raunverulega er. Fólk virðist upp til hópa ekki skilja hvað viðkomandi séu að fara og lái þeim það engin, enda líklega ekki verið talað með þessum hætti í, hvað, tugi ára?

Til dæmis hugtakið öreigi. Hvað er það. Er það fátæka fólkið? En orðfæri nútímans virðist bara eiga eitt hugtak, sem er „þetta fólk,“ sem aftur virðist geta þýtt nánast allt nema þá sem nota það, og alltaf að virðist í neikvæðri merkingu. Hvað er þá arðræningi? Þekkir fólk einhvern arðræningja? Örugglega engan held ég að væri svar flestra, ef ekki nær allra. Kannski Björgólfur Thor? Einhvern veginn samt ekki, hann er fjárfestir, er það ekki? Kannski ríkur, en gerir það hann að arðræningja? Svo heyrist talað um „ríkasta 1 prósentið,“ en engin virðist vita hvaða fólk það er.

Ég læt hér fljóta með stutta sögu þegar ungmennið á heimilinu var ennþá í grunnskóla og ég því miður efins um að hlutirnir hafi mikið breyst síðan þá.

Þegar barnið manns spyr, „pabbi, erum við fátæk?“ Tilefnið var að við höfum ekki haft efni á því að fara til útlanda í nokkur undanfarin ár og skólinn var að fara að byrja.

Kennararnir ýta undir þessa utanlandsferða ímynd með því að spyrja krakkana um það á haustin hvað þau hafi gert í sumarfríinu og eiga allir að svara því upphátt fyrir framan bekkinn.

Þau sem sjaldan eða aldrei fara til útlanda eru ekki mörg að mér skildist á barninu, en þar sem þetta hafði verið svona í mörg ár, var því farið að finnast það mjög óþægilegt að þurfa að „viðurkenna“ að hafa ekki farið til útlanda enn eitt sumarið og því virðast vera farin að upplifa að fjölskyldan væri fátæk, þar sem hún fer ekki til útlanda á hverju sumri á meðan sumir vinirnir höfðu kannski farið tvisvar.

Hverju átti ég að svara barninu?

Þetta er allt eitthvað svo öfugsnúið.

Neðanmáli

Ég hef verið fátækur alla mína ævi og er það enn. Það verður að viðurkennast að ég er ekkert öðruvísi en margt fólk sem ég nefni hér að ofan enda mjög stutt síðan að ég bæði horfðist í augu við það og viðurkenndi fyrir sjálfum mér. En ég ekkert að hrópa það út á torgi þó ég láti mig hafa það að skrifa það hér og finn fyrir djúpri skömm. Enda ríkir á Íslandi mjög mikil skömm yfir því að vera fátækur. Eða viðurkenna að maður tilheyrir lágstétt? Nei, aldrei ég.

Skildu eftir skilaboð / Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.