Steinþór Stefánsson hefði orðið 61. í dag hefði lifað en hann féll langtum of snemma frá

Steinþór Stefánsson, Akureyri, pönk í fæðingu 77-78

Steinþór Stefánsson, Akureyri, pönk í fæðingu 77-78

Og nú er einnig fallinn frá einn til viðbótar af okkur fjórum Asgeir Jonsson og við Árni einir eftir frá þessari stuttu og fámennu pönktímabilsfæðingu á Akureyri.


Kveðjuorð nín til Steinþórs á sínum tíma við fráfall hanns.

Steinþór Stefánsson ­ Fæddur 10. nóvember 1961 – Dáinn 27. mars 1988

Kveðjuorð

Við vorum fjórir ungir reiðir menn með eld í augum og háleitar hugmyndir um að breyta þyrfti heiminum. Slógum um okkur og höfðum hátt. En við vorum á Akureyri, litlum bæ sem er langt frá því að vera nafli alheimsins þó okkur hafi fundist það þá. Svo fórum við allir suður með tímanum og hugsjónirnar og ákafinn minnkaði. Við samlöguðumst því samfélagi sem við höfðum mótmælt sem hæst áður, nema einn okkar, Steinþór Stefánsson, hann hætti aldrei.

Stundum þótti manni hann hafa staðnað í uppreisninni en í hina röndina skammaðist maður sín. Tilvist hans minnti mann á að maður hafði gefist upp, ekki getað staðið við hin stóru orð. Hann hinsvegar var sjálfum sér samkvæmur og hætti aldrei að leita og reyna.

En að lifa sem náttúrubarn sem baðar sig nakið í dögginni á Jónsmessunótt í þessu steinsteypu samfélagi okkar er ekki það auðveldasta sem menn taka sér fyrir hendur. Árekstrar og misskilningur eru óumflýjanlegir. Ég hef hitt marga sem dæmdu hann, en þeir dæmdu eingöngu yfirborðið. Fáir þekktu það sem undir bjó enda var það sjaldnast til sýnis og flestar tilraunir til útskýringa af hans hálfu hróplega misskildar.

Undir þessu yfirborði bjó sál sem aldrei gerði nokkrum mein, nema sjálfum sér. Það var sem frumöfl heimsins væru að takast á í brjósti hans á stundum. Það voru mikil átök sem fóru sjaldnast fram hjá neinum, þau beindust aldrei gegn öðrum, áttu aldrei að snerta neinn annan. En það er fólk alls staðar. Fólk hefur augu og fólk dæmdi en það vissi ekki neitt, fæstir gerðu það.

Svo núna er hann farinn. Horfinn af sviðinu sem hann stóð svo oft á. Bassinn sem hann smíðaði er þagnaður og verkfærin liggja óhreyfð. En hann er ekki farinn langt ef ég þekki hann rétt. Hann er genginn út í náttúruna, inn í klettana, til þeirra afla sem skópu hann.

Skildu eftir skilaboð / Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.