Nú árar illa fyrir árum

Á öldum áður sáu menn púka og ára í hverju horni. Þeir húktu á bitum upp undir kirkjuloftum, óáreittir af guðsorðinu. Þjónuðu jafnt preláta sem fjölkunnuga og gerðu mörgu almúgafólki grikk.

Púkar eru nafnlausir kjánar ef marka má sögurnar. Erfitt er að gera sér ljósa mynd af útliti þeirra en einna helst er að skilja að oft hafi þeir klær, séu hár og skinnlausir og um flest skynfæri allslausir, smáir og litlausir.

Af sögnum má vera ljóst að þeir eru ótengdir kölska. Eru sjálfstætt lífsform, þótt hann notist oft við þjónustu þeirra þá gera það líka aðrir sem til þess hafa kunnáttu.

Svo hverjir eru þessir púkar. Hví voru þeir festir ódauðlegir í stein á öldum áður sem ufsagrýlur í Gotneskum kirkjum. Og ef þeir eru ekki afsprengi andskotans, eins og englar eiga að vera afsprengi guðs, hvaðan koma þeir þá og hvar eru þeir nú.

Hvað hafast þeir að þegar þeir eiga ekki samneyti við fólk og eru þeir eins vitgrannir og af er látið. Hafa þeir tilgang í sköpunarverkinu.

Eða er kannski engin tilgangur með sköpunarverkinu og þeir bara spruttu upp úr jörðinni. Eins og maðurinn sem ekki veit hví hann gengur á jörðinni.

En enn þá berast af og til fréttir af þeim. Af og til eru einhverjir að rekast á þá. Enn þá virðast þeir leynast í skúmaskotum og húka á bitum. Hví, hver veit það. Til hvers, það má kannski andskotinn einn vita.


Fyrst póstað á FB myndasíðu mína Bragi Halldorsson digital draftsman

Skildu eftir skilaboð / Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.