Lítil saga úr raunveruleikanum og hugleiðing út frá henni í tilefni Alþjóða Geðheilbrigðisdagsins 2022

Í dag er Alþjóða Geðheilbrigðisdagurinn. Og af því tilefni langar mig að segja ykkur stutta sögu úr raunveruleikanum. Söguna segi ég eftir minni og eins og mér finnst hún hljóma best, enda minni mitt lélegt, eða öllu heldur skáldlegt segja margir, en ég held að ég sé allavega slarkfær sögumaður, svo hér kemur sagan.

————————

Þannig var að í fréttir rataði að æðstur hæstaréttar dómara, sem þá var einn þriggja handhafa forsetavalds hér á landi í fjarveru forseta, en það er venjan, keypti sér víst skottfylli af víni á spottprís. En lögum samkvæmt má æðsta fólk þjóðarinnar þetta víst með þeim rökum að þeir þurfi alltaf að vera að halda veislur og þetta á að hjálpa þeim við að halda prívat kostnaði sínum við veisluhöldin niðri.

Þetta hugnaðist mörgum illa. Enda vissu líka fæstir ekkert af þessarri reglu og vildu að manngreyið, alsaklaus, annaðhvort skilaði víninu eða greiddi það í topp. Hann þráaðist við og vísaði til þess að svona hefði þetta alltaf verið og ætti ekkert að gilda neitt annað um hann en aðra á undan honum.

En sitt sýndist hverjum. Ákveðið var að kalla eftir áliti prófessors sem flestir gátu sætt sig við að væri nokkuð óumdeilanlegur matsmaður, til að semja fræðilega greinargerð um þetta mál.

En þannig var það að þessi tiltekni prófessors var geðveikur. Og þegar hann veiktist, sem alltaf gerðist af og til, rölti hann sig upp á geðdeild frekar en í skrifstofu kompu sína upp í Háskóla. Á geðdeildinni, líklega vegna þess að hann var mjög virtur maður í þjóðfélaginu, var hann með prívat skrifstofu, svo hann gæti sinnt sínum hugarefnum og vinnu, þótt hann væri inni á sjúkrahúsi þá stundina. Svona eins og fótbrotnir sem þurfa að leggjast inn á spítala leyfist að hafa með sér fartölvu og geta oft á meðan beinið grær sinnt sinni vinnu þar.

En hvað um það. Nokkrir embættismenn úr Dómsmálaráðuneytinu voru sendi út á örkina með þá bón að hann skrifaði greinargerð um þetta tiltekna vafa atriði, sem fólk gat ekki komið sér saman um hvernig ætti að snúa sér í. Þegar þeir komust að því að hann væri þessa stundina staddur á „hinni“ skrifstofu sinni, hafa þeir sjálfsagt litið hvur á annan. En búið var að ákveða þetta, svo það var ekki annað í stöðunni en heimsækja hann upp á geðdeild og biðja hann um að skrifa þessa greinargerð.

Hann jánkaði því, enda ekki óvanur því að vera beðin um að skera úr um ýmis álitamál í þjóðfélaginu. Kanski vegna þess að hann var þá staddur á „hinni“ skrifstofu sinnu þá stundina, þá eftir að hafa farið yfir lög, reglur og hefðir um þetta tiltekna atriði, settist hann niður, og mig grunar að hann hafi glott út í annað, byrjaði hann að skrifa.

Greinargerð sína byrjaði hann á orðunum, „Mér finnst ….“

En greinargerð á ekki að byrja svona. Sá sem vill láta taka sig alvarlega sem fræðimann skrifar ekki sitt persónulega álit um hvað honum finnist, heldur fræðilegt álit sem byggt er á þekkingu viðkomandi en ekki persónulegri skoðun. Eða að minstakosti á það að vera svo.

En þar sem búið var að öllum líkindum að ákveða þetta alltsaman fyrirfram í stjórnkerfinu og hann líklega vitað það, gerði hann þeim þennan grikk, en það pældu held ég fæstir í því. En mig grunar að á kaffistofunni upp í Háskóla hafi margir kollegar hanns hlegið dátt yfir þessu. Enda vitandi vits að hann bæði var þessa stundina á „hinni“ skrifstofunni sinni og eins að við þessa greinargerð yrði ekkert stuðst þegar ákvörðun yrði tekin í málinu hvort eð var. Þetta væri pólitískt mál.

— Endir

——————————————————-

En hví langar mig að segja ykkur þessa sögu á alþjóða geðheilbrigðisdeginum. Jú, við eigum mörg okkar „hina“ skrifstofu. Hún getur verið víða. Inni í höfði okkar, úti í náttúrunni á okkar prívat leynistað, í París, Róm eða inni á geðdeild.

En gerir það okkur eitthvað vanhæfari. Til dæmis í þjóðmálaumræðu eða öðrum skoðanaskiptum. Hættir að vera á okkur mark takandi þegar við skríðum inni í skelina, eða inn í skáp. Töpum við dómgreindinni? En fólk almennt sem ekki á sér „aðra“ skrifstofu getur tapað dómgreind sinni af minna tilefni. Erum við að stimpla okkur út, eða eru það hinir sem stimpla okkur út?

Ég eftirlæt hverjum þeim lesanda sem hefur haft nennu til að lesa allt hingað niður að ákveða það sjálf/ur. Viðkomandi þarf ekkert að hafa á því skoðun, enda að mínu mati offramboð af skoðunum í heiminum.

En ef viðkomandi væri til í að halla sér aftur á bak í stólnum, líta upp frá skjánum, að spenna greipar aftan á háls er líka gott og ef viðkomandi situr við glugga að horfa út og hugleiða þetta í smá stund. Það þarf ekkert að vera lengi, bara smá, í tilefni þessa dags.

Svo er hægt að gleyma þessu og snúa sér aftur að því að berja skoðun sína á pólitík eða Íslenska karla landsliðinu í fótbolta á lyklaborðið hér inni á FB.

En bara að gefa þessu málefni á þessum degi smá athygli þætti mér og ég veit mjög mörgum öðrum þakkarverð.

— Fyrir hönd okkar allra skrítnu skrúfanna í heiminum,

Bragi Halldórsson.


Póstað upphaflega á Facebook 10. október 2022 á Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn


Skildu eftir skilaboð / Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.