Innganginn endurskrifaði ég 2022 og endurbyrti upphaflegu lokaorð mín til Nonna ásamt dans myndbandi og tímasetningar og ár eru miðuð við 2022 en ekki þegar ég póstaði upphaflega á FB 2020.
Í dag þann 23. ágúst 2022 hefði Nonni Ragnars orðið 71. árs segir FB mér, fæddur 1951.
71 er í sjálfum sér er bara tala sem enga sérstaka merkingu hefur annað en vera tala, en þetta er og verður dagurinn hans svo mér fannst viðeigandi að senda Nonna minn kveðjudans í tilefni dagsins. Minning þín mun alltaf lifa Nonni, þú varst og ert goðsögn.
Á þarsíðasta ári skrifaði ég hér á FB kveðjuorð til Nonna og póstaði með þessu myndbandi. Núna þegar Nonni hefði orðið 71. las ég þennann texta og sá að ég gæti engu við hann bætt til að minnast hanns á þessum tímamótum svo ég pósta honum bara aftur.
Eins og fram kemur í textanum er þetta myndband tekið upp á gamla myndavél í lélegum gæðum og var aldrei ætlað til birtingar, í rauninni man ég ekki einusinni afhverju ég tók það upp því ég var í geðshræringu nýbúinn að heyra af andláti hanns.
Nonni sagði ætíð að maður ætti að fara inn í tilfinninguna og láta allt flakka, annað væri bara stælar og tilgerð, svo að velja lag að kostgæfni og undirbúa dans og upptöku var ekki í hanns anda, svo ég læt þetta bara flakka aftur, tel að honum hefði fundist það við hæfi þótt núna þegar ég horfi á þetta myndband hugsi ég, hvern andskotann varstu eiginlega að pæla Bragi að pósta þessu.
Þetta er væmnara en allt væmið og ég var í tilfinningarástandi þess að hafa verið að heyra af andláti hanns og dansinn því eftir því. En á meðann ég horfði á myndbandið og hugsaði þetta fannst mér ég líka sjá fyrir mér glottið á Nonna segjandi, „hva, þorirðu ekki að leyfa öðrum að sjá hvernig þú ert að innann? Má engin sjá þig nema þú sért búinn að æfa rulluna „þetta er ég“?“ svo líkt og í fyrra sem ég póstaði þessum lokadans mínum við Nonna geri ég það aftur þó með hálfum hug en held að honum myndi finnast annað roluháttur fyrst ég vil minnast hanns opinberlega á annað borð svo ég læt bara flakka.
Þetta voru og eru mín kveðjuorð til Nonna sem ég skrifaði í hittifyrra en hef engu við þau að bæta í rauninni, þetta fannst mér þá og finnst enn.
Þegar ég heyrði fyrst af andláti Nonna gat ég ekkert sagt. Það var ekkert sem hægt var að segja. Nonni var goðsögn í lifandi lífi og mun verða og maður er óskaplega smár frami fyrir fráfalli slíks manns. Upp í hugann komu allar þær mörgu stundir sem ég hafði átt með Nonna, sérstaklega upp í dal þar sem ég fylgdi honum og Heiðari í gegnum fyrstu ár svettsins sem tók stöðugum breytingum í meðförum Nonna því ekki dugði honum andi svettsins eins, hann spann og spann í kringum og inn í það heila rúmlega átta tíma heildar upplifun sem hann leiddi okkur eins og hljómsveitarstjóri í gegnum.
Þar á meðal eitt merkilegasta dansgólf sem ég hef upplifað þegar þeir innréttuðu stofuna með dúandi gólfi þar sem maður dansaði hálfnakinn á plastdúk sem sem maður sökk í, litríkum almáluðum veggjum og lofti að hætti Nonna, ljósum, teppum, sjölum, reykelsum, eitthvað fyrir öll skilningarvit og DJ Nonni fór með okkur í hin ýmsu ferðalög sem í gegnum dans er hægt að ferðast og þau eru mörg.
Í þessu dans alrými Nonna braut hann niður múra í mér sem höfðu háð mér í lífinu og dansinum, gjóandi á mann augum útundan sér glottandi sínu sérstaka glotti þess sem veit en segir ekki, sjálfur aðeins stígandi örfá spor og varla hreifa sig annað en blaka sínum táknrænu blævængjum sem ætíð fylgdu honum, hann var kominn yfir að þurfa neitt meira, annað en ég sjálfur sem hef alltaf og enn mikla tjáningarþörf og að fá tilfinningalega útrás í hreyfingum dansins, þá fannst honum án þess að segja það berum orðum frekar unggæðingslegt og ég þyrfti að læra að sleppa og lifa tónlistina en ekki endurtaka lærð spor og takta eins og ég væri einhver atvinnudansari að sína sama lærða dansinn kvöld eftir kvöld.
Svo þarna sem ég heyrði að hann hefði yfirgefið tilveruna hjarna megin og væntanlega stigið nokkur spor á leiðinni yfir, þá gat ég ekkert annað gert en dansað með Nonna þar sem hann sveif yfir bænum laus úr viðjum líkamans og inn í eilífan dans. Ég vissi samt ekkert hvernig. Hvernig dansar maður með, því ekki getur maður dansað við, mann eins og Nonna, kveðju og lokadans.
Þetta var því alltsaman frekar fumkennt, lag valið af tilviljun en tilviljun er þó ekki til, ég vissi ekkert í hvaða átt ég ætti að snúa mér svo ég greip gamlan síma sem lá í bókahillu til þess að ég hefði þó einhvern punkt til að beina mér að, í suður fannst mér mest viðeigandi og dansaði síðasta dansinn með Nonna áður en hann sveif endanlega á braut og tók þann dans upp á gamla skrapatólið.
Það stóð þó aldrei til að pósta þessari upptöku enda þegar ég tók hana upp var það nánast í hugsunarleysi, eiginlega bara vegna þess að mig vantaði einhvern fókuspunkt til þess að staðsetja mig og kveðja hann vonandi í þeim anda sem hann með óbeinum hætti kenndi manni, fara inn í og leifa tilfinningunni að flæða með laginu en ekki reyna að „dansa,“ aðeins mín einfalda kveðja og síðasti okkar dans.
Tæknilega er þessi upptaka ekki góð. Gamall sími með lélegri myndavél og hljóðupptöku og hef ég margoft reynt að finna önnur lög, lög sem Nonni spilaði eða hélt upp á en þegar ég hef skoðað þær upptökur þá hef ég alltaf fundið fyrir gamla glottinu sem þögult sagði mér og segir mér enn, Bragi minn, þetta eru bara stælar og tilgerð ekki tjáning og tilfinningar og dans er að fara inn í tilfinninguna og leifa henni óhindrað að flæða, hvort öðrum finnist það tilgerðarlegt eða drotningardrami kemur bara málinu ekki við, það er þeirra, ekki þitt.
Því var ekkert annað en gefast upp og hlíða ef ég á annaðborð vildi senda Nonna minn kveðjudans sem mér fannst og finnst að ég þurfi að gera. Hví veit ég ekki, mér bara finnst það og læt þá tilfinningu ráða.
En það sem ég fann svo sterkt fyrir að loknum þessum kveðjudans var að fá ekki hreinsun og afstemmingu hjá Heiðari svo maður gengi ekki frá dansinum með tilfinningar sínar hangandi út naktar og opinn inn í kviku. Svo ég vil tileinka Heiðari þetta litla myndbrot og dans, því mestu kynni mín og samvera með Nonna voru á þeim tíma þegar þeir félagarnir voru saman að skapa það ótrúlega galdra andrúmsloft sem þeir sköpuðu upp í dal og maður gleymdi oft hve Heiðar í sinni hógværð passaði alltaf upp á mann, sérstaklega ef Nonni var búinn að leysa úr læðingi hvað eina sem var sem inni í manni bjó og vildi og vantaði að komast út. Þá var alltaf passað upp á að maður næði að pakka sér aftur saman áður en maður hélt út í hversdaginn innan úr þeirri töfraveröld sem þeir skópu og Nonni stýrði eins og hljómsveitarstjóri en Heiðar passaði alltaf upp á að engin sinfónían setti neinn hljóðfæraleikaranna alveg úr lagi á flugi tónanna.
Takk innilega fyrir allt sem þú kenndir mér um til hvers og afhverju maður dansar og hví ég þarf og vil dansa.
Fyrst póstað á YouTube síðu minni