Jæja, þá er að gefa Búálfinum hér á Huldubrautinni og það í síðasta skipti þar sem núna seljum við húsið.
Hann var hér þegar við fluttum inn fyrir einum 16 árum svo líklega heldur hann sig við húsið en ekki okkur og verður hér áfram og vonandi mun sambúðin við nýja íbúa hússins ganga vel.
Fróðlegt verður svo að vita hvort Búálfur búi í næsta húsi sem maður mun búa í því þeir virðast ekki vera í öllum húsum. Tók mig nokkurn tíma að finna hann hér og hvar hann héldi sig.
Samkvæmt Erlu Stefáns þá bjó Búálfur í hennar húsi sem ætíð fór í ferðalag um Jól með eina litla tösku og gaman af myndinni sem hún teiknaði af honum og er í bók hennar Lífssín mín. Samkvæmt henni eru Álfar, Dvergar og aðrir vættir sem landið byggja allskonar í útliti en þar sem mig skortir þá sjón sem Erla hafði veit ég ekkert hvernig Búálfurinn hér á Huldubrautinni lítur út en það skiptir svo sem engu máli, bara að hann sé hér.
Fimm Rits kexkökur
Það var fyrir hreina tilviljun að ég valdi fimm Rits kexkökur sem tákn fyrir samskipti okkar og þökk mína til hans að gæta hússins og íbúa þess. Vissi svo sem ekkert hvað maður gæfi Búálfum í þakklætisskyni hafandi hvergi fundið heimildir þess nokkurstaðar eða hvort að það skipti yfir höfuð nokkru máli hvað það væri þar sem þetta er bara táknræn athöfn og hefur fyrst og fremst með mann sjálfan að gera en hvort yfir höfuð Búálfur búi í húsinu eða ekki eða yfir höfuð hvort þeir eru til. En það er annað mál.
Ég á mína ósýnilegu vini og kann því vel þótt oft hafi það því miður ekki alltaf verið ánægjulegt að hitta fyrir sumar þær verur. Ég hef fengið kalda gæsahúð í nokkur skipti og hrokkið illa í kút önnur en samskiptin hafa þó flest verið eins og samskipti mín við Búálfinn hér á Huldubrautinni. Táknræn og mest fyrir mig.
Komi þeir sem koma vilja, fari þeir sem fara vilja
Svo nú kveð ég hann í síðasta sinn nema hann kjósi að fylgja mér sem ég tel þó ólíklegt. Held að hann haldi sig við húsið en ekki íbúa þess því við keyptum húsið af ekkju hjónanna sem byggði það og ekki fylgdi hann henni svo ólíklega mun hann fylgja okkur.
Svo líkt og vanalega,
Komi þeir sem koma vilja
fari þeir sem fara vilja
mér og mínum að meina lausu.Svo læt ég dvína
bæn mína.
Þessi bæn var áður fyrr tengd sérstaklega Jólanóttinni sem hefst klukkan sex í kvöld en í nótt flyst Huldufólk búferlum ef það er að skipta um dvalarstað. Öll í einu á sama tíma líkt og við mannfólkið hér á landi fluttum áður fyrr allt á sama tíma á Fardögum nokkurn vegin á öndverðum tíma ársins við þau.
Þessum búferlaflutningum getur fylgt heljarinnar matar og drykkjuveislur sem þau iðurlega slá upp í hýbýlum manna en ekki sínum og það gat verið hættulegt að vera þá heimavið og að ekki hafi allt fólk lifað það af.
En í dag er enginn sem með þessa bæn fer nokkuð að hugsa um Huldufólk. Bænin hefur bara fylgt okkur og líkt og það að ég gefi Búálfinum hefur fyrst og fremst með mig að gera þá hefur þessi bæn fyrst og fremst þýðingu fyrir það fólk sem með hana fer algerlega óháð uppruna hennar og upphaflega merkingu. Enda breytast siðir með breyttum tímum, frá einum tíma yfir í nýja tíma og öðlast nýja og nýja merkingu óháð uppruna sínum.
Hefðir og venjur breitast en ástæða þeirra ekki
Svona líkt og Rómverjar hafi valið þann 25. desember sem fæðingarhátíð Krists var hjá þeim eingöngu vegna þess að það vissi enginn hvenær hann hafði fæðst og svo sem skipti það engu máli heldur. Það sem skipti máli var að velja táknrænan dag til þess að fagna því.
Völdu Rómverjar því 25. desember því samkvæmt tímatali þess tíma voru Vetrarsólstöður þann dag og var hefð fyrir því að halda þá mikla þriggja til átta daga svallveislu á mat og drykk, stundum tvær, fyrir og eftir þann 25.
Svo þegar kom í ljós að tímatalið var ekki hárrétt og Vetrarsólstöðurnar voru búnar að færast nokkuð fjarri 25. desember var ákveðið að halda í daginn frekar en færa hann til yfir á réttar Vetrarsólstöður enda dagurinn bara táknrænn og hafði ekkert með stjarnfræðilegar Sólstöður að gera, það var algert aukaatriði. Þriggja daga veisla með mat og drykk skipti öllu og engin ástæða að færa hana eitthvað til vegna þess að tímatalið var vitlaust.
Það er alveg það sama með þessa gömlu bæn að í dag hefur hún fyrir það fólk sem hana fer ekkert með komu og för Huldufólks að gera. Hún hefur breitt um merkingu og sú merking sem í hlutina eru lagðir á hverjum tíma eru eðli sínu samkvæmt alltaf rétt merking algerlega óháð uppruna sínum, því um menningarlega merkingu er að ræða en ekki vísindalega.
Megi einhver yfir ykkur vaka í nótt sem aðrar nætur
Svo ég fer með þessa stuttu bæn áður en ég ýti kexkökunum fimm undir skápinn líkt og vanalega og skiptir engu máli hvort vísindin samþykkja eða ekki hvort mínir ósýnilegu vinir eru til eða ekki, Búálfinum má ég ekki gleyma því hann gætir húss og heimilisfólks þótt ég telji ekki að hann þurfi að gæta okkar fyrir draugfullu Huldufólki.
Megi þið öll dvelja sátt í ykkar hýbýlum með ykkar fólki, nú eða engu fólki, það skiptir engu máli, þessa nótt.
Vitandi vís að það eru nokk víst að einhver vaki yfir ykkur hvort sem það eru Búálfar eða Securitas