RIP Angelo Badalamenti (1937-2022) sem lést í gær, 11. desember, 85 ára að aldri.
Af öllu því fólki sem lagt hefur fyrir sig kvikmyndatónlist þá er hann af öllum ólöstuðum einn af risunum í þeim geira og hefur verið mér óendanleg uppspretta yndis á að hlusta í heilmörg ár enda ferill hanns langur og merkilegur.
Þó er það oft með fólk eins og hann að það eru útúrdúrarnir og ólíkindin sem fær mann til að hrökkva í kút sem maður man svo vel eftir og þannig er eins með hann.
Orðinn þetta gamall þá hafði hann aldrei fengist við það sem við gætum kallað popptónlist og aldrei sýnt því áhuga og ævinlega hafnað öllum beiðnum um að semja slíka tónlist eða vera í samstarfi um slíkar smíðar.
Nema einu sinni.
Söngvara hljómsveitarinnar James, Tim Booth, tókst að „plata“ hann til þess að vinna með sér heila plötu sem öllum er hulin ráðgáta hvernig honum tókst, plötuna ‘Booth And The Bad Angel’ árið 1996.
Ástæða þess að ég minnist á þetta ólíkindaspor Angelo Badalamenti er vegna þess að eitt laga þessarar plötu er eitt af mínum uppáhalds danslögum og aldrei átti ég á sínum tíma von á því að eiga eftir að dansa við tónlist Badalamenti.
Maður hreifst af og hlustaði á tónlist hans úr Twin Peaks og Blue Velvet svo dæmi séu nefnd, en að dansa við tónlist hans? Nei, því átti ég aldrei von á að gera en geri oft í dag, því eitt laga þessarar plötu er mjög ofarlega á danslista mínum.
Svo til að minnast Angelo Badalamenti þá hlusta ég ekki á tónlist hans við Twin Peaks eða Blue Velvet, en þar kynntist ég tónlist hans fyrst eins og svo margur annar, heldur set ég lagið ‘Dance Of The Bad Angels’ af fyrrnefndri plötu sem hann vann með Tim Booth og dansa.
Þetta er snilldar groove eins ólíklegt og að slíkt lag skildi hann skilja eftir sig ásamt öllum þeim meistaraverkum sem hann samdi, þótt þetta sé ekki eitt af þeim, enda var hann ekki popp tónsmiður nema á þessari einu plötu sem engin veit hvernig Tim Booth tókst að plata hann til að vinna með sér.
Hver sem dáist að Angelo Badalamenti og hefur aldrei heyrt þessa plötu, endilega hlustið, þetta er eins langt frá því sem hann er þekktastur fyrir og hann komst.