Jæja, þá er að gefa Búálfinum hér í Hulduvör og líklega með síðustu skiptunum sem ég geri það. Þó eru Áramót og Þrettándinn eftir svo er alls óvíst með allt eftir það.
Hann var hér þegar við fluttum inn fyrir einum 17 árum síðan svo líklega heldur hann sig við húsið en ekki okkur og verður hér áfram og vonandi mun sambúðin við nýja íbúa hússins ganga vel.
En ég sagði þetta líka í fyrra. Húsið hefur verið á sölu í næstum eitt og hálft ár en öll sem hafa viljað kaupa það hefur verið neitað um lán í bönkunum.
Núna bíðum við svo í ég veit ekki hvaða skipti eftir að vita hvort síðasta kauptilboð muni halda vatni eða í eitt skiptið í viðbót einhver banki stoppar það af. Svo sjálfsagt er best að fullyrða sem mynnst um í hvaða skipti ég gef búálfinum. En ég mun halda því áfram á meðan ég dvel í þessu húsi.
Svo nú þegar vonandi styttist í að maður sé á förum, styttist í síðustu okkar samskipti, nema hann kjósi að fylgja mér sem ég tel þó ólíklegt. Held að hann haldi sig við húsið en ekki íbúa þess því við keyptum húsið af ekkju mannsins sem byggði það og ekki fylgdi hann henni svo ólíklega mun hann fylgja okkur.
Svo líkt og endranær;
Komi þeir sem koma vilja
fari þeir sem fara vilja
mér og mínum að meina lausu.
Svo læt ég dvína
bæn mína.
Ég fer með þessa stuttu bæn áður en ég ýti kexkökunum fimm undir skápinn líkt og vanalega og skiptir engu máli hvort vísindin samþykkja eða ekki hvort mínir ósýnilegu vinir eru til eða ekki, Búálfinum má ég ekki gleyma því hann gætir húss og heimilisfólks þótt ég telji ekki að hann þurfi að gæta okkar fyrir draugfullu Huldufólki.
Megi öll dvelja sátt í sínum hýbýlum með sínu fólki, nú eða engu fólki, það skiptir engu máli, þessa nótt sem aðrar. Vitandi vits að það eru nokk víst að einhver vaki yfir ykkur hvort sem það eru Búálfar eða Securitas