Ennþá heldur myndasagan sem hét upphaflega vinnuheitinu „Maður, hendur, hús“ áfram að taka fram fyrir hendurnar á mér og skrifa sig sjálf svo ég veit hreint ekki hvað ég á að kalla hana lengur.
Fyrst fór að birtast bulltextar inn á sumum myndunum og jafnvel stoppaði framrás atburða þar alveg því einhver persóna bara stoppaði og blaðraði og blaðraði (kannski ekkert skrítið í sögu eftir mig ).
Svo það nýjasta. Á nokkrum myndunum af samvöxnu persónunni og húsunum fór að koma lítið fólk trítlandi og flytja inn í húsin? Hvað næst spyr ég bara, er það ég eða sagan sjálf sem er að semja þessa sögu eða hvað?
Hún er svo gjörsamlega búin að taka af mér völdin að ef ég voga mér að hrófla við einhverjum texta eða skipunum eyðileggjast þær myndir almennt eða breytast á einhvern allt annan hátt en til stóð.
Ég var nú búinn að sættast við textann þar sem ég var orðinn þess fullviss að hann væri tómt bull og því gæti ég hugsanlega notað hann myndrænt en ekki sem lesanlegan texta en gallinn er bara sá að hann lætur ekkert af stjórn, kemur og fer eins og honum hentar, breytist og verður að mynstri eða hagar sér á hvern þann máta sem honum listir alfarið án þess að ég fái nokkru um það ráðið, ég hef enga stjórn á þessu lengur.
Og núna? Lítið fólk! Kvað næst spyr ég nú bara?
Hægt að fylgjast með framvindu þessarar tilraunar minnar hvort ég geti unnið myndasögu eða teiknimynd, því myndirnar eru svo margar og oft ekki svo mikill munur milli þeirra, með því að eiga samtal við AI myndasmíði reikniritan Midjourney. Ég hef stofnað möppu á Facebook myndasíðu minni bara fyrir myndir og pælingar um þetta verkefni sem eins og er heitir ennþá Maður, hendur, hús þótt spurning sé hvort ég þurfi að bæta við orðinu texti ef þetta heldur áfram svona.